Hér eru nokkur af forgangsverkefnum mínum

Veitum námsfólki frelsi til að afla aukatekna – án lánskerðinga!

Það er hagur okkar allra að búa sem best að námsmönnum – og forsenda farsællar framtíðar.

Tryggjum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld!

 • Við munum tryggja öldruðum búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.
 • Við munum berjast fyrir því að hjálpartæki verði undanþegin virðisaukaskatti.
 • Við ætlum að afnema vasapeninga-fyrirkomulagið.
 • Við ætlum að leiðrétta samansafnaða kjaragliðnun örorku- og ellilífeyrisþega.
 • Við munum tryggja aukið lýðræði og gegnsæi í lífeyrissjóðum.
 • Við munum tryggja að lífeyrisréttindi erfist við andlát.

Gerum efri árin að gæðaárum!

 • Efri árin eiga hvorki að vera fátæktargildra né kvíðaefni.
 • Við ætlum að hækka frítekjumark ellilífeyris vegna lífeyristekna frá 25.000 kr. upp í 100.000 kr.
 • Við munum leggja niður skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna.

Verjum íslensk heimili gegn okri!

 • Við ætlum að afnema verðtryggingu húsnæðislána.
 • Við viljum að almenningi verði heimilt að endurfjármagna verðtryggð lán með óverðtryggðum lánum án þess að undirgangast lánshæfis- og greiðslumat.
 • Við ætlum að afnema með öllu himinhá uppgreiðslugjöld á lánasamningum sem Íbúðalánasjóður gerði á sínum tíma.
 • Við munum berjast gegn húsnæðiskorti með því að skapa hvata til aukinnar uppbyggingar á nýju húsnæði.
 • Verð íbúðalóða á að miða við raunkostnað, en ekki duttlunga markaðarins.

Brjótum múra - bætum kjörin!

 • Lágmarksframfærsla verði 350.000 kr. skatta- og skerðingalaust!
 • Innleiðum nýtt almannatryggingakerfi sem tryggir lágmarksframfærslu og afnám skerðinga. Látum víxlverkandi skerðingarreglur ekki læsa fólk í fátæktargildru.
 • Við ætlum að heimila öllum öryrkjum sem treysta sér til, að reyna fyrir sér á vinnumarkaði í tvö ár án skerðinga og án þess að örorka þeirra sé endurmetin.
 • Við hvetjum einstaklinginn til sjálfsbjargar og munum aldrei refsa þeim né skerða tekjur þeirra, sem vilja og geta bjargað sér að einhverju leyti sjálfir.
 • Við munum löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Öxlum ábyrgð í umhverfismálum en íþyngjum ekki almenningi!

 • Við viljum að Ísland axli ábyrgð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, án þess að aðgerðir í þágu umhverfisverndar bitni á almenningi.
 • Við munum beita okkur gegn grænum sköttum sem auka misskiptingu og fátækt. Þeir greiði mest sem menga mest.
 • Við viljum nýta hreinar orkulindir landsins af skynsemi svo draga megi úr mengun, samhliða náttúruvernd.
 • Við styðjum ekki takmarkanir á ferðafrelsi almennings innanlands til að njóta eigin náttúru. Hálendið er unaðsreitur sem má ekki stofnanavæða í formi þjóðgarðs með tilheyrandi ráðherraræði á kostnað almannaréttar. Það hafa ekki allir efni á utanlandsferðum.